15.Ágúst.2005. Jæja komin aftur

Jæja gott fólk, þá er ég aftur komin í net samband.  Ég, Eisi og mamma lögðum af stað snemma á fimmtudagsmorgun til Króatíu. Við stoppuðum á leiðinni í bæ sem heitir Mostar til að skoða nýju “gömlu” brúnna. Þessi bær er sem sagt þekktur fyrir mjög fallega brú sem var byggð í gamla gamla daga og svo var hún sprengd í stríðinu og síðan þá hefur verið að endurbyggja hana, og loksins í fyrrasumar var framkvæmdum lokið. Við stoppuðum í kaffi og löbbuðum aðeins um og Eisi endaði upp með að kaupa sér GEGGJAÐAN hníf. Haldfangið er gulllitaður örn með útbreidda vængi og slíðrið er silfurlitað með gullsnáki sem vefur sig hringinn í kringum slíðrið.
Eftir á héldum við áfram til Króatíu. Stoppuðum aftur til að fá okkur að borða í uppáhalds veitingahúsinu hennar mömmu og svo vorum við komin í uppáhalds bæinn okkar í Króatíu um 18 leytið. Þar sem þetta er aðal túrista tímabilið tók það okkur smá tíma að finna húsnæði en enduðum upp með að fá fína “íbúð” ofarlega í bænum. Það er að vísu ekkert svo gaman að fá íbúð svona ofarlega í bænum af því að það tekur mann alveg 15 mín að labba niður að sjónum og ca 25 að labba aftur upp alla helvítis brekkuna, sem á kafla er frekar brött. En ég meina þetta var það eina í boði þannig að við tókum því. Um leið og við vorum búin að koma okkur fyrir röltum við í bæinn og fengum okkur léttan kvöldmat og skildum ekki eftir tips handa þjóninum því að við vorum í fýlu. Málið er það að við pöntum okkur vatn í flösku af því að kranavatnið er ekkert spes. Þegar þjónninn kemur með flöskuna þá fannst mér tappinn e-ð skrítinn, en hann var svo fljótur að grípa flöskuna og opna hana þannig að ég náði ekkert að segja neitt. Svo smökkum við vatnið og það bragðaðist eins og kranavatn. Þannig að til að græða smá meiri aukapening taka þau greinilega flöskurnar og fylla þær af kranavatni og selja þær þannig. Við að sjálfsögðu kölluðum á þjóninn og sögðum við hann að þetta væri kranavatn, en þá varð hann mjög fúll og hreytti í okkur að þetta væri svona sem það kæmi og hann væri bara að þjóna það og að þetta væri ekki hans vatn og fór svo. Við nenntum ekki að rífast því ég meina það þýðir ekkert þannig að þar sem við vorum rukkuð 15 kuna fyrir vatnið þá ákváðum við að við myndum fá peninginn aftur með því að skilja ekki einu sinni 1 krónu eftir handa dónalega þjóninum

Daginn eftir vöknuðum við spennt til að fara að sóla okkur á ströndinni en hmm því miður engin sól. Við að vísu fórum nú samt og lágum bara þarna að lesa bækur og sofa (mér finnst svo þægilegt að sofa á ströndinni). Svo þar sem regnguðinn hann Eisi var með í för þá að sjálfsögðu þurfti að dropa á okkur á nokkra mínútna fresti.  Á laugardeginum var nákvæmlega sama sagan þangað til svona 3 leytið. Við að vísu ákváðum að nenna ekki að sitja á ströndinni fyrr en það birti til og náðum þá svona ca 2-3 tímum í mjög daufri sól. Um kvöldið tókum við svo bát yfir til Dubrovnik til að fá okkur að borða á uppáhalds veitingastaðnum okkar þar, Moby Dick. Svo tókum við bátinn til baka og ég og Eisi sátum svo alveg heillengi á kaffihúsi í Cavtat að drekka vín og bjór. Hittum 4 Íra sem voru svona um 60 ára og spjöllum lengi við þau og löbbuðum svo heim. Í götunni okkar rákumst við á kött sem fylgdi okkur heim, þar hitti sá köttur annan kött sem hékk alltaf með okkur á hverju kvöldi. Þessir 2 kettir voru greinilega ekki vinir af því að þeir byrjuðu að hvæsa og öskra á hvorn annan og enduðu upp með að slást með þvílíkum látum að þeir vöktu upp næstum allt hverfið. 
Á sunnudeginum var svo gullfallegt veður og eyddum við næstum því öllum deginum á ströndinni. Þegar við komum heim þá hafði ég náð smá brúnum lit og Eisi smá bleikum lit  .
Mánudagurinn var svo aftur skýjaður og eyddum við því morgninum í að drekka kaffi og lesa á kaffihúsi. Svo lögðum við í hann. Stoppuðum á leiðinni í bæ sem heitir Trsteno og skoðuðum þar gullfallega eign sem er búin að vera í niðurníðslu í 14 ár. Þessi eign er í eigu Bosnískra yfirvalda og eru margir búnir að sýna áhuga á að kaupa en engum hefur tekist það ennþá. Menisegja hann þarna leikari Malkovic (leikarinn úr myndinni beeing like malkovic eða hvað sem hún nú hét, mjög furðuleg mynd) reyndi að kaupa þetta en tókst ekki. Þetta er nefnilega risastórt hús á 3 hæðum, svo er annað  2 hæða hús við hliðiná og annað svona 2 herbergja hús þar við hliðiná. Svo er alveg risastór garður þarna allt í kring. Svo labbar maður niður tröppur og kemur að svona semi stóru garðhýsi með gluggum allt í kring og gullfallegu útsýni yfir sjóinn. Svo ef maður labbar niður ennþá fleiri tröppur kemur maður niður að sjó og þar eru steinbekkir og gömul sundlaug grafin í klettana. Svo eru nokkur fleiri skúmaskot á eigninni þar sem var greinilega bar og annað. Ég meina þetta er allt ónýtt, litla 2 hæða húsið er meira og minna hrunið og það er búið að stela öllu steini léttara. Engir gluggar hurðar, EKKERT. Garðurinn og öll eignin að sjáfsögðu öll einn stór frumskógur, en guð minn góður hvað þetta hefur verið glæsilegur staður og ef maður gæti keypt þetta þá væri hægt að gera höll út úr þessu. Draumurinn okkar er einmitt að geta keypt þessa eign og gert hana upp. Enn…..
Já en núna erum við sem sagt komin aftur til Sarajevo og leggjum svo á morgun af stað til bæjarins þar sem mamma vinnur sem heitir Sanski Most og er ca 250 km frá Sarajevo. Ég veit ekki hvernig málin standa með netsamband þarna. Þannig að ef þið heyrið ekki frá mér í lengri tíma þá þýðir það að ég bara kemst ekki á netið.
Anywho þannig var þessi helgi hjá mér. Hvernig var helgin ykkar?
Ástarkveðja frá Sarajevo, heyrumst.

Leave a comment