22.Ágúst.2005. Helgin liðin

Enn ein helgin liðin og ég orðin enn einni vikunni eldri. En svona til að halda upp á það ætla ég að deila með ykkur því sem ég var að bralla um helgina.
Ég og Eisi ákváðum að eyða helginni í Sarajevo í staðinn fyrir að fara aftur til Króatíu. Að mínu mati var þetta mjög fín helgi og ákváðum við það, að í staðinn fyrir að hanga á kaffihúsum og leggja okkur í sófanum hennar mömmu yfir daginn að fara þá frekar á vit ævintýranna. Á laugardagsmorgninum vöknuðum við öll (ég, Eis og mamma) og drifum okkur í miklum flýti í kaffi niður á Michele, enda vitum við mamma ekkert betra en að eyða morgninum í að sitja og drekka kaffi á Michele. Mamma gerir þetta auðvitað allar helgar en ég því miður fæ aðeins að njóta þess á sumrin. Mamma pantar sér alltaf cappuchino og svona eftirrétt sem kallast Zito sem er eiginlega frekar erfitt að útskýra hvað er. Hmm hvernig get ég útskýrt þetta… Þetta eru sem sagt eins og þykk blanda af ýmsum heilkornum eins og höfrum og við þetta er blandað hunang og eitthvað annað sætt. Þannig að þetta endar sem eitthvað sem mætti líkja við mjög þykkan og þurran hafragraut sem er svo borið fram eins og 2 ískúlur með rjóma. Já ég veit að þetta hljómar alveg fáranlega og ekki svo vel en þetta er án gríns mjög spes og gott á bragðið. Ég panta mér hinsvegar alltaf kaffi latte og sódavatn en Eisi annaðhvort latte eða kaffi með rjóma og sódavatn. Að vísu þurfum við aldrei að panta því þjónarnir koma, bjóða góðan daginn og svo spyrja þeir hvort það sé ekki the regular og koma svo með pöntunina. Svo situr mamma og les blaðið á meðan ég og Eisi störum á fólkið inn á milli þess að hlusta á mömmu sem er að segja okkur frá því hvað er að gerast í fréttunum. Mér finnst eitthvað svo svakalega þægilegt og sjarmerandi að eyða helgarmorgnunum svona. Þetta er eins og í fyrrasumar þegar ég og mamma vorum einar, þá sátum við með kaffið okkar, deildum blaðinu á milli okkar og svo var bara drukkið kaffi og lesið, og svona inn á milli var litið upp úr blaðinu  til að skoða allan þennan svakalega fjölda af mismunandi fólki sem labbar alltaf fram og til baka um göngugötuna.
Svo er nefnilega svo fyndið að það er alltaf sama fólkið sem maður sér á hverju ári. Það er t.d. alveg svakalega gömul kona sem kemur alltaf eins og við alla helgarmorgna á kaffihúsið, og með henni kemur alltaf önnur gömul kona sem er nú samt mikið yngri. Gamla gamla konan labbar svo hægt og það tekur hana heila eilífð að komast yfir göngugötuna að kaffihúsinu, á meðan að hin gamla konan labbar alltaf með henni og styður við hana. Svo sitja þær alveg tímunum saman með kaffið sitt og reykja, alveg svaka ánægðar með lífið og tilveruna. Ógeðslega sætar. Svo er blindur eldgamall maður sem labbar alltaf fram hjá á hverjum morgni og lemur hann alltaf blindrastafnum sínum til hliðanna þannig að stafurinn rekst alltaf í vegginn eða hvað það er sem er alltaf vinstra meginn við hann. Þannig að maður heyrir alltaf í honum langar leiðir sérstaklega þar sem hann tautar alltaf sí oní æ: vlaka, vlaka (tyggjó, tyggjó). Svo heldur hann alltaf á nokkrum tyggjópökkum í hendinni til sölu. Enda oftast þegar hann kemur þá kaupum við alltaf af honum 1-2 tyggjó pakka. Alveg mest sætasti kall. Svo er einn kall í viðbót sem er alveg hrikalega spes. Hann er gráhærður með hárið svona pínulítið standandi út í loftið, eins og hann hefði fengið vægt raflost. Hann er fyrrum lögmaður, en svo hvort það var stuttu eftir stríð þá fór konan hans frá honum og hann varð soldið svona já mikið klikkaður, og gengur hann alltaf fram og tilbaka um götuna og stoppar hjá öðru hverju borði á kaffihúsunum og byrjar alltaf að tala mjög hátt og mjög hratt við alla um guð veit hvað. Svo rýkur hann af stað að næsta borði og heldur áfram að tauta og tala alveg fullt. Þetta gerir hann frá morgni til kvölds, og er það alveg hrikalega fyndið að fylgjast með honum.
En já nóg um það og aftur að því sem við vorum að gera á laugardagsmorgninum. S.s. eftir að við höfðum notið góðra stunda á kaffihúsinu okkar fórum við á búðarölt og keyptum alveg fullt af dóti. Keyptum nokkrar gjafir handa fólki og svo keypti ég að sjálfsögðu 2 mismunandi litla hluti handa 2 mismunandi manneskjum sem safna þessum hlutum
. Þið vitið alveg hverjar þið eruð og hvað ég keypti er það ekki?
Svoooo ákváðum við að fara á vit ævintýranna á fína Land Cruisernum hennar mömmu. Við byrjuðum á því að fara að skoða glænýja sundlaug sem er ný búið að opna í Sarajevo og verð ég að segja að þetta er alveg svaka flott. Svona risa sundlaugar svæði með mörgum laugum og rennibrautum og dóti. Voðalega flott. Svo keyrðum upp á fjall sem að hluta til umlykur Sarajevo og heitir fjallið Igman (ca 20 mín keyrsla frá miðbænum). Þar keyrðum við og skoðuðum skíðasvæðið (sem er að vísu á öðru aðliggjandi fjalli sem heitir Bjelasnica), en á þessum 2 fjöllum voru einmitt vetrarólimpíuleikarnir haldnir árið ´84. Á leiðinni niður af fjallinu ákváðum við að fara einn fjallaveg sem var eini vegurinn sem fólk gat notað á stríðsárunum til að komast til og frá Sarajevo. Þetta var sem sagt eini vegurinn sem Serbar höfðu ekki yfirráð með. Þannig að það var bara gaman að keyra þarna niður og setja sig í spor fólks sem aðallega gekk eða keyrði þennan veg undir skothríð og í niðamyrkri. Einmitt á þessum vegi árið ´95 í lok stríðsins fór herbíll út af veginum og datt niður mjög bratta brekku og létust þarna 3 bandarískir og einn ungur franskur hermaður, meðan að þeir voru að keyra þarna í niðamyrkri með engin bílljós til að vekja ekki athygli serbanna. En það var einmitt það sem fólk þurfti að gera var að gera í algjöru myrkri á þessum einbreiða, bratta og mjög bugðótta vegi. Sem eftir að hafa keyrt þetta að degi til þá get ég ekki skilið hvernig þetta var hægt.
Um kvöldið borðuðum við svo á mjög kósí veitingastað sem er ca 15 km frá Sarajevo, og svo var bara farið heim að skrifa blogg og lesa bækur.
Í dag hinsvegar ákváðum við að fara í bíltúr að skoða stöðuvatn sem er um 2 tíma akstur frá Sarjevo og er þetta stöðuvatn staðsett á ca 1600 metra hæð upp í fjöllunum. Við byrjuðum nú að sjálfsögðu á því að eyða morgninum á Michele og lögðum við svo í hann upp úr hádegi. Ég verð nú að segja að þetta var alveg ÓTRÚLEGT.  Maður þarf að keyra í ca klukkutíma upp 16 km langan einbreiðan mjög brattan fjallveg. Þegar maður er svo komin upp í 1680 metra hæð blasir við manni alveg ótrúleg sjón. Þetta er svona hálfgert flatlendi upp í fjalli, og er þarna svona lítið stöðuvatn og í kringum það er lítið þorp með gömlum pínulitlum bjálkakofum sem voru byggðir fyrir um 500-600 árum síðan. Þetta var eins og að bæði ferðast aftur í tíman (burt séð frá öllum bílunum) og einnig eins og að vera komin í eitthvað allt annað land. Að vissu leyti leit þetta út eins og maður væri komin á einhverja græna fallega sléttu á annaðhvort grænlandi eða færeyjum eða eitthvað álíka. En ég verð að segja að þetta var alveg með ólíkindum fallegt, einkennilegt og spes.
Við fundum svo einn lítinn kofa sem var svona pínulítil búð með öllu og fengum við okkur bjór og kaffi þar og nutum þess bara hreinlega að vera þarna á svona dýrlegum stað. Eftir að hafa dundað okkur þarna í 2 tíma keyrðum við aftur heim og fengum okkur að borða, enda glorsoltin eftir ferðalagið. Svo ákváðum við að rölta aðeins um bæinn þangað til að það byrjaði að rigna og þá var bara farið heim að skrifa blogg og já ég er sem sagt enn að.
Ég verð nú samt að segja að ég vildi óska þess að pabbi væri með okkur, því honum finnst líka alveg svakalega gaman að keyra um og skoða. Einnig finnst Eisa svo leiðinlegt að pabbi sé ekki hérna því þá gætu þeir 2 setið á veitingastöðunum og drukkið svona hérlenskt grappa saman. En vonandi næst þegar að við komum hingað eða förum eitthvað annað þá getur pabbi komið með.
En heyriði ég verð að segja ykkur það að við erum búin að fá tvisvar sinnum staðfestingu á því núna að Eisi ER regnguð. Ég meina það er sama hvert ég og Eisi höfum farið yfir árin þá er alltaf rigning um leið og Eisi kemur. Árið í ár er engin undantekning. Þannig að við höfum alltaf verið að grínast með það að hann sé regnguð og núna í ár fengum við staðfestingu á því. Þegar við vorum á ströndinni í Króatíu þá dropaði alltaf af og til á okkur. Svo eitt skipti hættir að dropa og Eisi segir eitthvað álíka eins og hey það er hætt að rigna og um leið og hann sleppir orðinu rigning þá byrjar aftur að rigna. Svo núna á föstudagskvöldið fórum við og fengum okkur að borða á einum veitingastað. Áður en við fórum var þrumuveður og alveg brjálað úrhelli. Svo hætti að rigna og það varð aftur mjög hlýtt í veðri þannig að við ákváðum að sitja úti á veitingahúsinu. Við erum búin að koma okkur fyrir og svona, enda ekki búið að rigna neitt í hálftíma og það leit ekki út fyrir það að það myndi rigna meir. Svo segir Eisi allt í einu: hey hvað gerum við ef það fer aftur að rigna. Ég og mamma sögðum bara nei nei ég meina það mun pottþétt ekki rigna meir og viti menn 2 sek seinna byrjaði að rigna. Við urðum öll frekar hissa og ég og mamma sögðum hreinlega við Eisa að héðan í frá væri orðið rigning bannað í hans orðaforða. Svo sögðum við honum í djóki að hann ætti að fara segja : sól, sól. Eisi gerir það og viti menn það hættir strax að rigna. Þannig að já planið er sem sagt að Eisi ætlar að fara að selja sig til landa eins og eþíópíu þar sem er enga rigningu að fá.
En já helgin er sem sagt búin og ég hef ekki mikið meir að segja eins og er. Nema það að planið fyrir næstu daga er að fara núna á morgun aftur til Sanski Most, nema að við ætlum að keyra aðeins um og skoða hitt og þetta á leiðinni og stoppa hér og þar. Svo mun mamma fara að vinna á þriðjudaginn en ég og Eisi erum að hugsa um að fara að skoða svona stöðuvötn sem eru um 2 tíma akstur frá Sanski Most. Þetta er sem sagt eitt stöðuvatn sem myndar 5-6 lítil stöðuvötn því þau eru öll í mismunandi hæðar leveli. Pabbi og mamma segja að þetta sé mjög fallegt þannig að okkur (aðallega mig) langar að skoða. Svo veit ég ekki hvort við gistum þar eina nótt eða förum aftur í íbúðina í Sanski Most og svo komum við aftur til Sarajevo á miðvikudagskvöldið.
Það getur vel verið að ég nái að skrifa eitthvað í millitíðinni en ef ekki þá mun ég skrifa aftur langa færslu á miðvikudagskvöldið.
Þangað til þá

Leave a comment