Saturday, 29 July, 2006

Nóg að gera í hitabylgju

Posted in Uncategorized at 10:38 am by lexusinn

Ok það er búið að vera meira en nóg að gerast hjá mér síðustu vikur og lítill tími til að blogga, þannig að núna fáið þið enn fleiri langar færslur af mínu lífi hér í Bosníu. Sunnudaginn þann 8 júlí, naut ég dagsins í rólegheitum og svo um kvöldið fór ég að sækja hana Tal (prófessorinn minn frá Preston) á flugvöllin, hún nefnilega var að koma hingað í tæplega 5 daga dvöl. Hún kom það seint um kvöldið að hún, ég og mamma, náðum að spjalla í ca klukkutíma í eldhúsinu um allt og ekkert, svo horfðum við á restina af loka fótboltaleiknum, Frakkland-Ítalía, og mér til mikillar gleði unnu Frakkarnir ekki. Skítt með Ítalana hélt ekki með þeim né á móti þeim, mitt aðal goal var það að frakkarnir mundu ekki vinna og svo varð, JEJJJJJJJJJ, núna þarf ég ekki að fara aftur til Preston og horfa á Frakkana með sitt sigurglott. Afhverju, hmmmm, prófið þið að búa með 5 frökkum í næstum heilt ár og segið mér afhverju.

Að vísu þá átti franska liðið skilið að vinna, því þeir voru virkilega góðir, en ég er ekki svo hlynt frökkum sem heild og ég vildi ekki sjá þá brosa þessu sigurbrosi það sem eftir væri, þeir halda að þeir séu bestastir og æðislegastir nú þegar, vantaði ekki þetta uppá, HA, þetta mun sýna þeim. Sorry allir sem gætu orðið fúlir yfir þessu kommenti, en aftur mun ég segja: búið með 5 frökkum í Englandi, og verið umvafin frökkum í Englandi og þið munuð skilja mig.

Alla veganna, á mándeginum (morguninn eftir að Tal kom) fórum ég, mamma og hún á skrifstofuna hér í Sarajevo. Mamma fór að vinna að sínu, og ég fór að taka Tal á milli skrifstofa svo að hún geti hitt hinn og þennan. Eftir mikil fagnaðarlæti og annað fyrst um morguninn þegar að hún hitti alla sem hún hafði ekki séð í næstum 10 ár (hún var nefnilega að vinna í Bosníu árið 1997), þá skildi ég hana eftir með fólki svo hún gæti spjallað. Um kl 17 var hún loksins búin að hitta og spjalla og allt það og við löbbuðum heim. Á leiðinni heim kíktum við í bæinn og hún keypti dúkku handa dóttur sinni og smá minjagrip fyrir konuna sem var að passa dóttur hennar meðan að hún var hér. Svo var auðvitað farið út að borða um kvöldið og svo snemma að sofa.

Á þriðjudeginum vöknuðum við kl 5 um morguninn (eða þær kl 5, ég soldið mikið seinna). Svo klukkan 6 vorum við mættar á bílnum niðri í bæ, þar sem við hittum alla frá federal commission (lokal liðið sem sér um uppgreftri í bosniu) og þar var beðið eftir að allir mættu, fengum VIP miða í gluggana á bílunum okkar og svo var lagt af stað til Potocari í jarðaförina. Ástæðan fyrir því að við lögðum svo snemma af stað (tekur bara rúmlega 2 tíma að keyra og jarðaförin átti ekki að byrja fyrr en um 1) var sú að árið áður var 10 ára anniversary frá því að Srebrenica genocide átti sér stað og það árið voru um 2000 manns sem komust ekki á leiðarenda vegna umferðar. Núna voru því allir svo traumatized og þess vegna lögðum við af stað svo snemma. Umferðin var þó fín þetta árið og vorum við komin til Potocari um 10 leytið, og þegar að þangað var komið var búið til kaffi fyrir liðið og svo var bara beðið. Á meðan að við biðum, gengum við um byggingarnar sem fyrrum Hollenska UN liðið gætti í Srebrenica (þau eru núna að fara fyrir rétt í Haag, fyrir það að segjast ætla að gæta múslimanna, en samt tókst Serbunum að ná þeim og myrða um 8500 af þeim, anyways, þið ættuð að vita af þessu). Við skoðuðum því fullt af veggkroti sem hermennirnir úr DUTCHBAT skildu eftir sig á þessum árum sem þeir áttu að vera að gæta öryggis Srebrenica búa. Mikið af flottum teikningum, veggkroti, dagatölum, og kommentum um Bosníu menn/konur sem voru ekki svo flott. T.d. eitt segir: MY ASS IS LIKE A “LOCAL” ITS GOT THE SAME SMELL. BOSNIA ’94. Eða: NO TEETH…?                                                

 A MUSTACHE…                                               

SMEL LIKE SHIT…?                                                

BOSNIAN GIRL!

Jú jú ég er með allar myndirnar af þessu, fullt af þeim, mun setja þær inn þegar að ég get, eiginlega þegar að ég kemst í góða internettengingu.

En já eftir að hafa eytt tímanum okkar í að drekkar kaffi, spjalla, hitta fólk, þá fórum við öll að fylgjast með athöfninni. Hún byrjaði á þjóðsöngnum og Bosníski fáninn var dreginn að stöng. Svo voru sungin 3 lög af kór og tilheyrandi, og svo var messa. Messan er auðvitað múslimsk, og því allt á arabísku og maður skilur ekki neitt (að vísu skilja flest allir múslimarnir hérna heldur ekki neitt, en þetta er þeirra trú og þeir vita hvenær á að beygja sig fram, hvenær að standa upp og svo framvegis, þau kunna bænirnar, þó þau kunni ekki arabísku). En það er alltaf svo áhugaverð stund, falleg á sinn hátt, þegar að maður sér þúsundir manna fyrir framan sig (við sitjum alltaf efst í brekkunni) beygja sig á sama tíma, standa upp á sama tíma, leggjast niður á sama tíma. Mjög flott. Einnig það sem er flott við athöfnina í Potocari, er að konur fá að standa og biðja í röðum með karlmönnum (annars er reglan sú í venjulegum moskum (kirkjurnar þeirra) að karlarnir fara inn að biðja og konurnar bíða úti), en þessi athöfn er öðruvísi, þetta er minningar jarðaför og fleiri konur en karlar syrgja sína menn og því á þessum degi, í þessari athöfn, eru múslimskar konur og menn, jafningjar. Svo eftir athöfnina fara allir að ná í líkkisturnar sem innihalda þeirra nánustu. Málið er að 2003 og fyrir, var búið að raða líkkistunum niður við grafirnar, og eftir athöfnina fóru allir að gröf sinna þeirra sem átti að grafa og allir byrjuðu að grafa sína nánustu. En frá og með síðasta ári, var einhverra hluta vegna ákveðið að raða öllum kistunum í röð hjá staðnum þar sem messan fer fram og svo eftir messuna fara allir og taka “sína” kistu og bera hana að gröfinni. Við fylgdumst með því í smá stund þegar að hundruðir voru að taka líkisturnar sem þau ætluðu að grafa og svo voru þær bornar handa á milli ad gröfunum. Hmm erftitt að lýsa þessu í orðum.

Vanalega hefðum við fylgst með öllu saman, þ.e. meðan að fólk er að taka kisturnar og svo grafa þær, en Amor (head of the bosnian federal commission), var búin að ákveða að sýna einhverjum “mikilvægum” útlendingum eina fjöldagröf sem búið var að opna nokkra kílómetra frá. Öllum sem voru í bílförinni með honum til Potocari var velkomið að koma með. Við auðvitað ákváðum að fara að skoða gröfina, enda ekki spurning um annað. Þau segja að þetta sé stærsta fjöldagröf í Bosníu hingað til. En málið er eftir að við sáum hana þá vorum við ekki svo vissar. Málið er að árið 2003 vann ég í mánuð, af nokkrum mánuðum sem unnið var þar, að stærstu gröf í bosníu hingað til. Sú gröf, Crni vrh, innihélt rúmlega 600 einstaklinga, var um 40 metra löng og um 12 metra djúp. En þessi gröf hins vegar er um 6 metra löng og um 2 metra djúp, af því sem að við sáum. En ég meina hver veit, kannski er hún stærri, kannski er hún dýpri, kannski………….Hvort sem er við sáum, skoðuðum og fórum, samt ekki fyrr en bæði Amor og mamma voru búin að halda smá fyrirlestur um hvað var að gerast í gröfinni og svo framvegis, sem Amor endaði á: jæja við ættum kannski að fara að koma okkur frá gröfinni fyrir þá sem ekki þola fnykinn. Tal var þó mjög ánægð því hún hefur ekki unnið að fjöldagröf í mörg ár og hún náði að taka fullt af myndum fyrir kennsluna næsta ár, en hún spurði mig samt: voru einhverjir sem voru ekki að þola lyktina/fnykinn? Ég sagði já, því það voru alla veganna 5 manns þarna sem héldu vasaklút þétt upp að nefinu allan tímann og svo nokkrir aðrir sem voru með frekar skrítinn svip á andlitinu. Fyrir okkur var þessi lykt/fnykur ekki svo truflandi, eitthvað sem maður finnur liggur við dags daglega í þessari vinnu. Ég meina maður venst ekki lyktinni, maður frekar venst því að venjast henni.

En hvort sem er….. eftir að hafa skoðað gröfina lögðum ég og Tal, og mamma í sitthvora áttina. Ég og Tal keyrðum til Tusla (fyrir norðan) mamma hins vegar fékk far með hinum til Sarajevo, mamma þurfti nefnilega að mæta í vinnuna í Sanski Most daginn eftir en ég og Tal vorum að fara að ferðast um landið að hitta hinn og þennan. Eftir um því eins og hálf tíma akstur komum við til Tusla (bærinn sem ég vann í, í 2 mánuði 2003). Við gistum á gamla heimilinu mínu og hennar Tal (konan þar, Zlata, leigði nefnilega herbergi í húsinu sínu til ýmiss fólks frá að ég held 1996). Tal bjó þar 1997 og mamma með hléum og svo Pétur og svo ég frá 1997-2004. Ég meina það mundi taka mig bls að segja frá því hversu indisleg þessi kona og börn hennar eru (sonurinn vinnur í blóðsöfnun fyrir ICMP og dóttirinn í skrifstofunni í Sarajevo). En já Tal hefur ekki hitt hana í 10 ár og ég ekki í 2 ár og við gistum því hjá henni um nóttina. Fagnaðar fundir, matur, spjall og alles. Eftir að hún fór að sofa sátum við Tal svo langt fram á kvöld að drekka bjór og spjalla við Edin (soninn, um 30 ára). Morguninn eftir, miðvikudag, vöknuðum við snemma. Zlata og Edin fóru að vinna sína vinnu og ég og Tal fórum að hitta fólk. Við byrjuðum að heimsækja local spítalann þar sem maður að nafni Vedo vinnur, Tal vann með honum áður eins og með alla þá hefur hún ekki séð þetta fólk í 10 ár og eins og með alla í Tusla þá hef ég ekki hitt þetta fólk í 2-3 ár. Við eyddum einhverjum 2 tímum upp á spítala. Fyrst eftir öll fagnaðarlætin af að sjá Tal, þá eyddum við um klst í að spjalla og svo fórum ég og Tal að hjálpa Vedo að vinna í um klst. Ég verð að segja að eftir öll mín ár að vinna með mismunandi bein og jafnvel þetta árið þar sem að ég sé og vinn að beinum næstum daglega, þá varð ég svo ánægð og hvað get ég sagt “æst” á sama tíma. Málið er að beinin sem Vedo er að vinna að eru beinin sem fundust í Crni Vrh gröfinni sem ég vann að í mánuð í 2003. Hingað til hafði ég aldrei unnið að beinum í líkhúsi, sem ég hafði grafið upp. Ég varð því afskaplega spennt þegar að ég sá bein, 3 árum eftir að ég tók þátt í að grafa þau upp, liggjandi þarna. Ég veit að það hljómar furðulega, en það var þessi tilfinning að maður væri að heilsa upp á einhvern sem maður hafði ekki séð í 3 ár………………..sá liggjandi á einu borðinu, furðulegt hringlaga tæki með vírum, sem hafði verið notað til að laga beinbrot, virkilega furðulegur hlutur, ég hafði tekið þátt í að grafa þetta upp, allir sem unnu að þessari gröf muna eftir þessu. Já, skrítin tilfinning, enn og aftur ekki hægt að lýsa þessu. Sem vísindamaður, jú frábært að sjá öll þessi bein sem maður gróf upp aftur, frábært tækifæri til að skoða öll þessi börn, konur og menn, fólk greinilega ný komið eða tekið af spítala með ýmis brot og annað, barna bein (maður sér þau ekki svo oft, sem betur fer), konu beinagrind með leifar af fóstri………………..Tal var að skoða konu beinagrind sem búið var að leggja út í anatómíska stöðu (það er eins og hún hafði verið liggjandi á bakinu) og við fætur hennar var hrúga af allskonar dóti, þ.e.a.s beinflísar, steinar og annað sem maður skilur eftir við skoðun, en Tal fór að skoða þetta betur og sortera í gegnum þetta í von um að finna kannski lítil fingra/tá bein og hvað fann hún. Jú hún fann fyrst bein sem hún hélt að tilheyrði kannski kjúklingi, en svo leit hún betur og hún fann fleri svona bein og svo fattaði hún..ég er að týna upp fóstur. Hún fann leggjar bein (sem líta svo furðulega út, þegar þau eru úr samhengi að maður gæti haldið að þau væru dýra bein), hægri hluta af mjaðmargrind, bæði axlarbeinin, og alla hauskúpuna (sem er alltaf í hlutum, því bein hauskúpunnar vaxa ekki saman fyrr en barnið er fætt). Sem sagt, ófrísk kona, komin á síðustu mánuði meðgöngu. Hmm, sem vísindamaður, svoooooooooooo áhugavert. En sem manneskja, svo sorglegt að sjá konu og fóstur, barna bein, bein gamalla, veikra manna og kvenna………………….. En ég reyni að horfa sem sjaldans á bein með augum manneskju og horfi ég á þau með augum réttarmannfræðings.

Eftir að hafa verið þarna hjá Vedo í um tvo tíma fórum við að skoða 2 aðra staði, hitta meira fólk og svo keyrðum við af stað til Sanski Most. Vorum komnar þangað um kvöldmatarleitið, borðuðum, spjölluðum við mömmu og Nermin og svo fórum við öll snemma að sofa. Daginn eftir eyddum við deginum í vinnunni, ég var að vinna með mömmu, en Tal var að tala við Senem (stelpuna sem vinnur með mömmu og er að reyna að sækja um scholarship í sama mastersnám og ég í Preston). Svo tók hún hrúgu af myndum fyrir kennsluna og svo keyrðum við til Sarajevo. Borðuðum og fórum aftur snemma að sofa þar sem við þurftum að vera mættar á flugvöllinn kl 6 um morguninn.

Svo síðan þá þangað til núna er ég bara búin að vera eyða tímanum mínum í vinna og læra og eiginlega ekkert annað. Það er einhver fjandans hitabylgja að ganga yfir og við erum bókstaflega búin að vera að drepast úr hita núna í rúma viku. Það eru upp í 37°C daglega og það er engin loftræsting í vinnunni (vöruhúsinu). Hitamælirinn inni í vöruhúsinu var komin upp í 35°C, þannig að við erum frekar örmagna í vinnunni og heilinn á manni er hægt og sígandi að breytast í mauk, og maður svitnar svo mikið að ég hlýt að fara að breytast í sveskju bráðum. Við prófuðum að setja hitamælin út í sólina í dag og þegar að ég fór að ná í hitamælinn þá var hann kominn í það hæsta, því hann nær bara upp í ca 55°C. Ég fór því að velta fyrir mér hvernig mér tókst að lifa af sumarið 2003 þegar að ég var að vinna að uppgröftrum í hitabylgju. Ég meina við vorum ekki með neitt tjald eða neitt yfir gröfinni og vorum við því að vinna í pjúra sól. Ef mælirinn núna fór yfir 55°C þá hlutum við að hafa verið að vinna í rúmum 60°C daglega. En jú ég er ENN á lífi og ég sakna Íslenska sumarsins frekar mikið núna. Ég veit að þið heima eruð að kvarta yfir hvað það er kalt, en það er samt skárra en þessi hiti, sérstaklega þar sem ég er ekki í fríi að spóka mig í sólinni.

Nóg í bili

Heyrumst 

Tuesday, 18 July, 2006

Meira fra Bosniu

Posted in Uncategorized at 15:09 pm by lexusinn

Ína mín, gaman að fá komment frá þér og mér þykir vænt um það að þér þyki gaman að lesa bloggið mitt. Ég les þitt alltaf líka út frá Rósu síðu, en hef ekki kommentað, verð að bæta úr því. Einnig þá er alltaf eitthvað að gerast og ég er alltaf að gleyma að setja þitt blogg inn á mitt blogg (eins og ég er enn ekki búin að uppfæra Rósu, eins og ég er nú ánægð með hennar nýju síðu, fínt að koma sér af þessu leiðinda blog.central). Alla veganna ég vil hér og með biðjast afsökunar á því að hafa ENN ekki sett þig inn hjá mér og mun ég bæta úr því við fyrsta tækifæri.

Elsku Tinn Tinn-inn minn, þú ert svo ævintýragjörn og svo þyrst á þekkingu, að það var bara týpiskt þú að leita á internetinu hvar ég er búin að vera. Gaman að heyra að þú færð aldrei nóg af nýjum stöðum og nýrri þekkingu, einnig gaman að einhver skuli haft fyrir því að leita að stöðunum sem ég var á (ég tók auðvitað fullt af myndum, en bæði heima hjá mömmu og í vinnunni í Sanski Most er bara þessi gamla símtenging á netinu og í skrifstofunni í Sarajevo er ekki hægt að setja memory chip inn, því þannig eru þau að verja tölvurnar gegn vírusum. Erfitt fyrir mig að setja myndir inn, því það tekur svooooooo langan tíma).

En jú ég er alveg sammála þér, þetta eru meiriháttar fallegir staðir og ég er svo þakklát fyrir að eiga foreldra sem elska að ferðast, og sem eiga bara 2 börn sem þau vilja mennta, og kynna fyrir heiminum á allan kostnað. Sumir myndu vilja kalla þetta dekur við börnin sín, en svo er ekki. Ég meina jú ok (sorry Monika) þá er systir mín (eða var alla veganna áður en hún fór til S-Ameríku) dekruð. En ég hins vegar þó að mér hafi alltaf boðist allt á silfurplatta frá því að ég var krakki, þá notfæri ég mér það ekki og nýt þess að vera sjálfstæð, vil helst ekki taka við greiðum, peningum, lánum what ever, nema nauðsyn beri að. En svo þegar að það kemur að því að mennta sig og skoða lönd og annað sem ég hef ekki efni á, þá vilja pabbi og mamma frekar borga það fyrir mig og systur mína heldur en að við förum ekki, gerum ekki, sjáum ekki, það er meðan að þau hafa efni á því, og ég er tilbúin að taka við því, ekki bara að því að ég vil, heldur af því að pa og ma heimta það. Svona er bara mín litla fjölskylda, frekar að búa í lítilli íbúð og eiga gamla bíla og svo ferðast og skoða heiminn og eyða öllum sparanlegum pening í börnin sín svo þau geti lært sem mest bæði í venjulegum skóla og skóla lífsins. Er ég þakklát……………….hef ekki orð til að lýsa hversu þakklát ég er……..Pabbi, mamma, þið eruð BEST og ég elska ykkur af öllu mínu hjarta.

En já frá dekri og sentimental statements, þá á ég eftir að segja ykkur hvað hefur drifið á daga mína nýlega. Pabbi fór sem sagt heim til íslands síðasta miðvikudag. Svo vorum ég og mamma bara að vinna stanslaust og fórum um helginga heim til Sarajevo.Síðasta laugardag fórum við eins og vanalega niður á Michel að fá okkur kaffi, lesa blaðið o.s.frv. Nema að í staðinn fyrir að slappa af og sitja í rólegheitum og fara svo heim eftir 3 kaffi, þá vorum við að bíða eftir líkförinni. Ok, hmm hugsið þið. Málið er að núna síðasta þriðjudag var enn ein fjöldajarðarförin í minningargrafreitnum í Potocari, rétt fyrir utan Srebrenica, þar sem öll 8300 plús, mínus fórnarlömb Srebrenica munu vera grafin þegar að þau eru fundin og kennsl borin á þau (þið sem vitið ekki hvað gerðist í Srebrenica 1995, ættið fyrst að skammast ykkar og svo lesa ykkur til um það, endalaust í fréttum og alles, en ef þið vitið enn ekki sendið mér meil, við erum að tala um fyrstu útrýmingar og vonandi síðustu frá því að Hitler var, í Evrópu).En já sem sagt núna 11 júlí eru 11 ár frá the genocide in Srebrenica þetta árið munu 505 manns vera grafnir (ég fór árið 2003 og þá voru að mig minnir um 250 manns grafnir). En já síðasta laugardag voru þau að keyra með allar 505 kisturnar frá Visoko til Potocari og þurfa þau að keyra í gegnum miðbæ Sarajevo. Ég og mamma fórum því kl 12 út á  aðalgötuna (sem var búið að loka fyrir umferð) að sjá þegar að þau keyra frammhjá. Ég meina þetta er eins og þeir myndu keyra í gegnum lækjargötuna, fólk allstaðar á gangstéttinni að horfa og svo keyrir bílalestin frammhjá, löggubílar, bílar með allskonar hérlendu fólki sem sér um uppgreftri/jarðarfarir og annað, og svo 3 risa trukkar og svo eftir þeim aftur nokkrir löggubílar. Ég meina trukkarnir líta út eins og venjulegir trukkar, maður sér ekki kisturnar, EN allir vita að sjálfsögðu hvað er að keyra frammhjá, 505 manns sem voru drepnir með köldu blóði. Áður en bílalestin kemur í augnsjón á götunni, er talað, hlegið og allt það venjulega. Um leið og þeir birtast þá rekur þögn yfir allann bæinn og fólk bara horfir á í þögn, fólk segir bænir í hljóði og gerir tilheyrandi handahreyfingar, fólk tárast, grætur og öll augu einblína á bílalestina meðan að hún fer frammhjá. Ég meina ég missti af líkförinni í gegnum bæinn árið 2003 þó að ég hafði náð að fara í jarðaförina, og þá gat ég bara ímyndað mér (eins og þið eruð að gera núna, hvernig það var), en að vera viðstödd þetta núna er bara ólýsanlegt. Að vera á staðnum, maður finnur fyrir öllum þeim samblötnu tilfinningum sem liggja í loftinu og sem maður finnur hrærast í manni sjálfum og tengja alla viðstadda saman: sorg yfir því sem gerðist, gleði yfir að loksins þessir 505 einstaklingar voru að fara heim í síðasta skipti, sorg fjölskyldumeðlima og landa, gleði yfir því að fjöldskyldan væri að fá lokun á þjáningar sínar……………………svo ótrúlega hjartfólgin stund. Einmitt það sem gerir það, sem við gerum að lifi brauði okkar, svo þess virði.    

Eftir að líkfylgdin keyrði frammhjá byrjuðum við, eins og allir að labba sína leið, ég og mamma ætluðum heim því hún ætlaði á skrifstofuna að vinna en ég ætlaði að vera heima í tölvunni að vinna að mínu. Svo fór mamma að segja að hún hafði verið viðstödd við marga af uppgreftrum fólks frá Srebrenica, hún hafði unnið að beinum þeirra mánuðum saman, hún hafði séð þá keyra framhjá í gegnum Sarajevo á leið “heim” í minningargrafreitinn, og að hún hafði séð þá verið setta í síðasta skipti í jörðina í jarðaförunum. En hún hafði aldrei verið í Potocari þegar að verið er að afferma kisturnar úr trukkunum inn í vöruhúsið, þar sem kisturnar eru geymdar þangað til að jarðaförin verður. Ég sagði því við mömmu að ég hef gert allt það sama og hún (nema að ég hef bara horft á uppgreftri frá Srebrenica people, hef tekið þátt í öðrum uppgröftrum) og að það gæti verið að þetta yrði síðast árið mitt í Bosníu. Við horfum því á hvor aðra í smá stund og eftir að mamma sagði “gætum við” og ég sagði “já, why not” þá tókum við þá ákvörðun að keyra af stað til Potocari á eftir þeim. Við lögðum af stað ca klst eftir þeim frá Sarajevo (tekur 2 tíma að keyra) og náðum þeim um 20 mín áður en þau komu til Potocari. Við fylgdumst með þeim afferma alla þrjá trukkana með hjálp karlkyns fjölsyldumeðlima þeirra látnu plús þeirra sem vildu hjálpa (mannaröð frá trukkunum inn í vöruhús, hver kista borin á milli margra handa og svo raðað niður). Múslimsku konurnar grátandi, fólk labbandi á milli kistanna sem var búið að raða niður til að finna sitt fólk. Aftur þessi ótrúlega hjartnæma tilfinning í loftinu, sorg, sorg, sorg en samt gleði, það er hreinlega ekki hægt að lýsa því hvernig andrúmsloftið er þarna á þeirri stundu, ég hef reynt að hugsa um hvernig ég á að lýsa þessu en bókstaflega get það ekki. Hreinlega get það ekki…………….

Eftir að búið var að koma öllum 505 kistunum fyrir, löbbuðum ég og mamma aðeins um minningar-kirkugarðinn, það var svo brjálað þrumuveður þegar að bílalestin kom til Potocari (sagði einmitt við mömmu að veðrið væri að bjóða strákana sína heim með pompi og pragt), að okkur langaði að skoða hvernig grafirnar sem búið var að grafa fyrir jarðaförina litu út. Jú, jú allar grafirnar voru stút fullar af vatni og þurfti að panta nokkrar auka pumpur til að taka út allt vatnið. Svo fórum við einnig að heimsækja einu af mjög fáum kvennmönnum sem voru drepnar frá Srebrenica, því það voru bara karlar sem að þurftu að flýgja Srebrenica, og þær konur sem dóu, fylgdu annað hvort sínum mönnum og dóu þannig, eða þá guð veit hvað, en þangað til núna þá held ég að hún sé sú eina sem er nú þegar grafin (það eru held ég 5 konur sem verða grafnar núna, 500 karlmenn). En þessi stelpa, fædd 1973 ákvað að labba með kærastanum sínum í burtu frá öllum drápunum í skjól, nema að þau voru drepin á leiðinni. Og þegar að þau fundust af mömmu og öðrum eftir stríð, þá þurfti mamma að skipta beinunum þeirra því þau höfðu verið í faðmlögum þegar að þau dóu. Mamma man því alltaf eftir þeim (fundum ekki gröfina hans munum finna hana á þriðjudag) og við förum alltaf að heimsækja þau, mér finnst þetta nefnilega svo súrsætt. Löbbuðu saman, voru drepin saman, náðu að liggja í faðmlögum þangað til að þau dóu þannig, voru aðskilin þegar að þau fundust sem beinagrindur samvafin, grafin í sama garði en samt í aðskildum grafreitum þar sem þau voru ekki gift, og hver fjölskylda vildi sitt. Jamm SÚR-SÆTT.En jú svona er lífið.

Eftir að hafa fylgst með öllu, skoðað allt, heimsókt grafir fórum við og fengum okkur að borða hjá einum múslima sem hefur komið aftur til Srebrenica (sem núna er full af serbum, ethnic cleansing goes on), svo keyrðum við heim til Sarajevo.Held að þetta sé nóg í bili og mun skrifa aftur á vonandi á fimmtudagsmorgun (nema að ég komist á netið fyrr, er nefnilega í smá ferðalagi þessa vikuna, segi frá því næst).

Sunday, 9 July, 2006

Frí lok og aftur í vinnuna

Posted in Uncategorized at 22:09 pm by lexusinn

Jæja gott fólk, hvert var ég eiginlega komin. Jú ég var komin að síðasta föstudegi, þar sem við þurftum að vakna snemma, þrífa íbúðina eftir okkur og leggja af stað frá Grikklandi hægt og rólega heim til Bosníu. Að vísu fórum við ekki frá Grikklandi fyrr en að við vorum búin að skoða stað sem heitir Meteora, þetta er sem sagt svæði þar sem er fullt af meiriháttar fallegum sandsteinsklettum, allskonar í laginu, og ofaná þessum klettum eru staðsett klaustur. Bókstaflega ef einhver hefði lyft upp heilu klaustrunum og plantað þeim á toppinum á klettunum. Virkilega fallegt ap sjá bæði klaustrin svona upp í klettunum og þessa nátturúfegurð sem þessir klettar eru. Við skoðuðum að vísu ekki inn í nema 2 af einhverjum 8-10 klaustrum sem eru þarna dreifð á nokkurra km svæði. Enda var svo vængefinn hiti, að við vorum búin á því eftir að hafa labbað upp á toppinn á einum klettinum og svo til baka út í bíl, og létum við því það nægja að horfa á restina úr fjarlægð.Eftir að hafa skoðað okkur um þar, stoppuðum við á kaffihúsi, fengum okkur að borða og drukkum endalaust af ísköldu vatni, enda enn að deyja úr hita. Svo fengum við ískalt vatn til að fylla á tómu plastflöskurnar okkar út í bíl og svo var lagt af stað frá Grikklandi inn til Makedóníu.

Við komum til bæjar í Makedóníu sem heitir Ochrid um kvöldmatarleytið. Ochrid er fallegur bær sem er staðsettur við risastórt stöðuvatn sem heitir einnig Ochrid, þar fundum við okkur hótelherbergi með útsýni yfir vatnið. Fórum svo og átum og drukkum á okkur gat, röltum um miðbæinn og skoðuðum í búðarglugga. Svo var bara farið að sofa svo við gætum vaknað snemma daginn eftir.Á laugardeginum sem sagt, vöknuðum við og eftir ágætis hótel morgunmat, keyrðum við að skoða gamla bæinn í Ochrid sem er umkringdur gömlum múrveggjum. þar skoðuðum við gamalt klaustur, fornleifaminjar og gamla virkið sem er þar, virkilega fallegt og indælt þarna.

Svo var sest aftur upp í bíl og lagt af stað til Albaníu. Í Albaníu keyrðum við hafnarborgarinnar Durres, kíktum á hvernig ströndin í Albaníu lítur út, og fengum okkur að borða við ströndina. Ég verð að segja að þó að Albanía sé talin vera fátækasta landið í Evrópu, vegna þess að þau voru undir versta kommúnisman í svo langan tíma, þá lítur Albanía alls ekki út fyrir að vera eins fátæk eins og hún er talin vera. Að vísu þá er Albanska mafían stærri, sterkari og valdameiri en Ítalska og Rússneska liggur við til samans. En já, eftir smá dvöl í Durres keyrðum við til höfuðborgar Albaníu, Tyrane, og keyrðum þar aðeins um og skoðuðum hvað væri að gerast þar.

Svo lögðum við aftur í hann þar sem klukkan var orðin frekar margt og við ætluðum að ná að gista í gamla bænum Kotor í Svartfjallandi yfir nóttina. En kl 21 um kvöldið þá var pabbi orðinn frekar þreyttur og pirraður eftir rúma 5 tíma stanslausa keyrslu um hörmulega vegi í Albaníu og beygjótta vegi svo í Svartfjallalandi. Við ákváðum því að gista í öðrum bæ sem heitir Cetinje og er gamla höfuðborg Svartfjallalands. Við skráðum okkur því inn á eina hótelið í bænum, sem er by the way með ljótustu hótelum sem ég hef séð. Týpiskt júgóslavneskt kommúnisma tíma hótel. En ég meina ekki var um mikið annað að velja. Við reyndum því að gera það besta úr kvöldinu, fórum og fengum okkur að borða og horfðum á Frakka spila gegn Brasilíu og svo var rölt upp á hótel að sofa. Daginn eftir, sunnudaginn, eftir frekar ekki svo góðan hótel morgunmat, röltum við aðeins um Cetinje og lögðum svo enn eina ferðina af stað. Við keyrðum frá Cetinje á mjög beygjóttum og þröngum fjallaveg, sem er frægur fyrir alveg stórkostlegt útsýni. Virkilega þess virði að fara þennan veg og skoða þetta meiriháttar útsýni. Við keyrðum svo niður til gamals bæjar niðri við sjóinn sem heitir Budva og skoðuðum okkur um þar. Eftir fína veru í Svartfjallalandi, keyrðum við inn til Króatíu, stoppuðum í kaffi og samloku í uppáhalds bænum okkar þar, Cavtat og svo keyrðum við í 3 tíma heim til Sarajevo. Við fórum beint á einn af veitingastöðunum nálægt húsinu okkar og borðuðum seinan kvöldmat með kunningjakonu mömmu.

Mánudagurinn fór bara í pura leti hjá mér og einnig kvöldið. Svo á þriðjudeginum lögðum við öll snemma af stað um morguninn til Sanski Most. Við unnum smá yfir daginn, og svo var borðað, horft á fótboltann um kvöldið og farið að sofa. Pabbi og mamma lögðu svo af stað um nóttina til Zagreb, því pabbi átti vél klukkan 8:30 um morguninn. Ég og Nermin hins vegar vöknuðum á eðlilegum tíma, fórum og fengum okkur kaffi og svo í vinnuna. Á miðvikudeginum var meira en nóg að gera í vinnunni og var ég að frá kl 9 til kl 15 að vinna og frá 15 til 17:30 að vinna að ritgerðinni minni stanslaust. Ég held ég hafi bara sest niður í hálfa sígó yfir daginn (reykjum nefnilega meðan að við vinnum). Svo fórum við og fengum okkur að borða og svo átti ég eftir að fara yfir nokkur case fyrir ritgerðina mína og fórum ég og mamma því aftur í vinnuna og vorum þar til 21. Svo þegar heim var komið þá var ég búin að fá nóg af því að sitja fyrir framan tölvu að ég slappaði bara af um kvöldið. Fimmtudagurinn var þessi venjulegi dagur í vinnunni, nóg að gera. Svo um kvöldið sat ég heima að vinna að ritgerðinni. Á föstudeginum var sama sem ekkert að gera í vinnunni og vann ég því að gögnunum mínum til kl 15 þegar að ég og mamma lögðum af stað til Sarajevo. Jæja nóg í bili og segi ykkur frá helginni seinna.

Thursday, 6 July, 2006

Meira fra Grikklands ferdinni

Posted in Uncategorized at 12:53 pm by lexusinn

Já gott fólk ég átti sem sagt enn eftir að segja ykkur frá sunnudags morgninum þar sem ég vaknaði stolt á undan pabba og mömmu. Við auðvitað byrjuðum á því að fá okkur morgunmat og kaffi og allt það. Við ákváðum að vera ekkert að stressa okkur þar sem að það var nú sunnudagsmorgun og sátum við því í um heila 2 tíma út á verönd. Svo fengum við nóg af því að sitja á byggingarsvæðinu. Ég nefnilega held að ég sé ekki búin að segja ykkur frá því að Auðunn og Sigurjóna keyptu íbúð í húsi þar sem á ekki að afhenda lykla fyrr en núna í júlí, en Auðunn ýtti á þá og fékk afhent í febrúar. Við vorum því eina fólkið sem bjó í ókláraðri húsnæðisbyggingu og þar að auki er verið að byggja endalaust af húsum í kring. Við því, vorum eina íbúðin í húsa lengju sem enn var verið að vinna að (saga flísar, laga gangstéttar og guð veit hvað), svo húsið við hliðiná var ekki einu sinni orðið fokhelt, og var því endalaust verið að hamra og bora hinum megin við götuna (og þegar að ég meina götuna, þá er ég að meina mjög lítinn malarveg). Eftir því smá setu á veröndinni innan um öll lætin og rykið sem að lagði af allri söguninni og boruninni ákváðum við, þar sem það var skýjað þennan dag og leit út fyrir að vera skýjað allan daginn, að fara í smá site seeing. Við keyrðum í lítin bæ, ca 15km  frá okkur sem heitir Dion að skoða smá fornleifarústir. Við fetuðum því í fótspor Alexanders hins Mikla (sá sem nýlega bíómynd var gerð af) og skoðuðum gamlar rústir frá hans tíma. Heila borg og leikhús og rústir af stöðum sem hann var á, og ýmsar rústir og þaðan af. það var auðvitað frábært að fá að skoða þetta allt, nema að eina vandamálið var það að þessi ský sem við sáum voru greinilega bara í smá stund og fengum við því að labba í ca 3 tíma í svooooooooo miklum hita að manni langaði helst að deyja á staðnum. En eftir að hafa  skoðað allt merkilegt var klukkan orðin 15 og við enn að deyja úr hita, þá ákváðum við að kíkja á fyrstu ströndina sem að við gátum fundið og fórum í sjóinn og lágum í smá sólbaði og rólegheitum þar. Svo auðvitað aftur í sömu rútínu, allir í sturtu og þeir sem voru ekki í sturtu drukku á meðan og svo út að borða. Á mánudeginum fórum við á ströndina og eyddum heilum degi þar á sólbekkjum þar sem pabbi fékk sinn skugga og ég og mamma í sól og svo flökkuðum við á milli sjós og lands í mestu notalegheitum í 35 stiga hita. Um 15 leytið fórum við svo á stað sem er á ströndinni að fá okkur að borða og svo seinna meira flakka á milli sjós og lands. Svo var farið heim um 19 leitið, skipts á að fara í sturtu, drukkið á meðan og svo farið út að borða í 28 stiga hita kl 21 um kvöldið, eins og öll hin kvöldin. Á þriðjudeginum var sama rútína, kaffi og vesen á byggingarsvæðin en aftur var skýjað og ákváðum við því að fara til borgar sem heitir Katerini og er ca 30 km frá okkur að útbúa lykil að húsinu sem sumir týndu nokkrum dögum áður (en ætla ekki að fara út í smá atriði hér 🙂 ). Svo fórum við á ströndina nálægt þeim bæ og ég og mamma vorum til að gera allt það sem pabbi vildi þar sem þetta var afmælisdagurinn hans, 27 júní. Eftir smá setu á ströndinni, líkaði okkur ekki svo vel því sjórinn var mengaður af þörungum og bara ekkert gaman. Við ákváðum því að fara á aðra strönd og vorum þar restina af deginum. Um kvöldið eftir sturtu og drykki fórum við á veitingastað sem pabbi vildi fara á (enda afmælið hans) og eftir mat labbaði mamma heim og ég ákvað að draga pabba á kaffihús þar sem hann gat horft á fótboltann, því hann vildi horfa en samt þá þarf hann að hanga með mér og mömmu þannig að mér tókst að draga pabba annað skiptið í röð á kaffihús svo hann geti horft á boltann. Ég horfi ekki á fótbolta og hef aldrei gert, en þar sem það er auðvitað mun skemmtilegra að horfa á fótboltann með öðrum á kaffihúsi heldur en einn heima þá er þetta í annað skiptið þar sem ég sit með pabba á kaffihúsi að horfa á leikinn. Ég meina mér finnst það fínt, pabbi fylgist með leiknum á meðan að ég sit og drekk vín og horfi með öðru auga. það var að vísu planið, en auðvitað eftir að sitja þarna ein með pabba og öllum hinum  sem erum að glápa á skjáinn þá fylgist maður með, og þetta kvöld voru frakkar að spila við spánverja. Ég, skiljanlega þoli ekki frakka, og því fylgdist ég spennt með leiknum bara til að sjá helvítis frakkana tapa. En nei, nei þeim tókst að skora mark eftir hálfleik (1-0) og ég og pabbi vorum frekar vonsvikin og löbbuðum heim stuttu eftir það, þó að það væru ca 20 mín eftir af leiknum (Enda vorum við bæði frekar þreytt, og það var um 29 stiga hiti,enn um 23 leytið og eftir að fjandans frakkarnir skoruðu og spánverjarnir spiluðu svo illa, þá vorum við bara búin að fá nóg). Samt auðvitað nutum við verandarinnar og drykks þar þegar að við komum heim.Svo kemur bæði miðvikudagur og fimmtudagur, leiðinlegt að þurfa að hlaupa svona í gegnum dagana en ég vil heldur ekki lýsa heilum degi nákvæmlega því hvað, ég er nú þegar búin að dragast aftur í, í dögum. En já miðvikudagur og fimmtudagur voru bara hreinlega þessi sumarfríis rútína. Sitja út á verönd þangað til að maður fékk nóg af ryki og borun og öllu því sem fylgir og eyddum við því þessum 2 dögum í að fara á ströndina og liggja þar, borða, heim, drekka, borða sofa. By the way eftir alla þessa daga á ströndinni er ég orðin svo náttúrulega brún og sæt og enginn kærasti til að sjá mig. En ég meina svona er þetta hjá mér, verð sólar brún og sæt og svo hverfur brúnkan og ég held mínu lífi áfram og ég læt ekki sjá mig í sólarbekkjum. Maður sér nefnilega fullt af brúnu fólki heima eftir alla þessa blessuðu sólbekki, en málið er að maður getur alltaf séð hver stundar sólbekki 20 sinnum á dag og á fólki sem að fer til útlanda og situr í alvöru sól. Ég meina ég hef séð stelpur heima sem eru búnar að sitja svo mikið í bekkjum og þær halda að þær séu svo sætar og fínar en brúnkan þeirra er svo uppiskroppuð og svo ónáttúruleg að það er bókstaflega eins og þær hefðu fundið mykju haug, stungið sér þar oní og mykjan storknað utan á þeim. Takk fyrir nei takk, ég nýt þess að vera brún af því að ég fór til sólarlanda, en svo kem ég heim og þá er ég bara hreinlega sú sem ég er í mínu náttúrulega umhverfi, og þarf ekki sólarbekki bara til þess að líta út ónáttúrulega brún á veturna í landi þar sem er engin sól. Alla veganna gæti skrifað bls um sólarbekki og annað en ætla ekki að gera það.Er hætt í dag, þarf að vakna snemma á morgun og mun segja ykkur frá öllu seinna.