4.Mars.2006. Meira um Seattle og annað

Ok hvað á ég að segja ykkur meir. Á daginn í Seattle vorum við mamma á ráðstefnunni að hitta fólk og hlusta á fyrirlestra og var nokkuð um góða fyrirlestra og svo nokkuð um ekki svo góða fyrirlestra þetta árið. Svo á kvöldin átum við Sushi. Það er nefnilega ekki hægt að fá sushi í Bosníu (það er jú einhver einn lítill staður í Sarajevo sem ber fram sushi, en þar fyrir utan, ekkert) þannig að þegar mamma fer eitthvert þar sem hægt er að fá sushi þá borðar hún það næstum öll kvöld. Mér finnst sushi svo sem bara ágætt, en ég fæ það ekki heldur dagsdaglega þannig að ég ákvað bara að borða sushi öll kvöld líka.
Æskuvinur hennar mömmu býr ekki svo langt frá Seattle og hann ákvað að koma í eins dags heimsókn til Seattle að hitta okkur og bjóða okkur út að borða, þannig að eitt kvöldið fengum við geðveikt fínan kvöldmat í Space Needle (stóri turninn sem er kennileiti Seattle). Það var virkilega fínt að fara út að borða þarna, þetta er eins og perlan, geðveikt fancy og flott og veitingastaðurinn snýst í hring meðan maður borðar. Þannig að við fengum ekki bara góðan mat og vín, heldur líka geggjað kvöld útsýni yfir alla Seattle.
Svo á síðasta deginum okkar, laugardeginum, fórum við á 2-3 fyrirlestra um morguninn og eyddum svo restinni af deginum í að versla, borða og skoða okkur um, og að sjálfsögðu þurftum við að fara og fá okkur kaffi á fyrsta Starbucksnum, sem var opnaður niðri við höfnina í Seattle 1971 (ég og mamma erum nefnilega alvöru starbucks aðdáendur, fáum ekki nóg af kaffinu þeirra
).
En jú allt tekur enda og í þetta skipti verð ég nú að segja sem betur fer, því vika fyrir mér er nóg í bandaríkjunum. Ég er ekki neitt voðalega hrifinn af bandaríkjunum né bandaríkjamönnum. Mér finnst fínt að fara þarna á ráðstefnurnar, skoða nýjar borgir og svo koma mér tilbaka í heilbrigða siðmenningu.  Ferðin heim var ágæt og vélin sem ég tók frá Detroit til London var hálf tóm þannig að ég fékk gott sæti og átti röðina út af fyrir mig, þannig að ég gat lagt mig meira og minna alla leiðina. Annað en greyið mamma sem þurfti að millilenda bæði í Amsterdam og Zagreb í Króatíu þar sem hún þurfti svo að bíða í ca 6 klukkutíma því veðrið í Sarajevo var svo vont að flugu ekki fyrr en seint um kvöldið.
En já ég er sem sagt komin aftur til Preston, 30 pennum og allskonar drasli ríkari (sem við fengum ókeypis á ráðstefnunni ) og er núna á fullu að reyna að vinna að tillögunni minni um masters ritgerðina mína.
Við fengum fyrsta snjóinn okkar í gær og í dag er búið að kyngja niður stanslaust. Ég var einhvern veginn að vona að þar sem það er kominn mars að við myndum sleppa við snjókomu, en svo virðist ekki vera
Ég verð að viðurkenna það að ég er eitthvað löt við að skrifa síðustu daga þannig að ég ætla að láta þetta duga í bili
P.s. Gummi: ég man ekki hvernig Norman Bates leit út, svo langt síðan að ég sá myndina, en ég get alveg ímyndað mér að hann hafi verið eitthvað líkur honum
Una: jú rútuferðirnar í denn, denn voru mjög skemmtilegar, en það var aðallega að því að þú og Klara voruð þarna  Í dag hins vegar HATA ég langar rútuferðir. Ég og Eisi tókum rútu frá Póllandi til Króatíu fyrir nokkrum árum síðan og hún var einhverja 32 tíma á leiðinni, stoppaði kannski 4 sinnum í sígó stopp og það var algert HELVÍTI. Fer ekki í langar rútuferðir lengur. Ohhhh mér bara hryllir við því  Hey hvernig er það átt þú ekki að fara að eiga eitthvað pínku pons eftir nokkra daga?

Leave a comment