21.Ágúst.2005. Skýrslan fyrir vikuna

Jæja þá er komið að því að greina frá atburðum vikunnar hér í Bosníu. Þetta er nú kannski ekki búin að vera neitt ævintýralega atburðarík vika, en fyrir mér er þetta búið að vera frábært.
Á þriðjudeginum fór mamma af stað snemma til Sanski Most með vinnufélaga sínum honum Nermin, en ég og Eisi urðum aðeins lengur í bænum að stússast. Við að vísu sváfum aðeins lengur en við ætluðum okkur
þannig að um leið og við vöknuðum fórum við í bæinn og keyptum flugmiða frá Sarajevo til Belgíu, og fljúgum við 25 ágúst. Svo að sjálfsögðu þurftum við að fá okkur kaffi í Michele sem er kaffihús sem við öll familían höfum verið fastagestir á í ára raðir. Því næst lögðum ég og Eisi í hann og keyrðum í 4 1/2 tíma til Sanski Most. Þegar þangað var komið fengum við okkur að borða ásamt mömmu í einum af bestu veitingastöðunum sem finnast í Bosníu og heitir þessi staður Camino. Án gríns maturinn er geggjaður, sama hvað maður pantar sér ( þetta væri kannski ekki svo spes ef þessi staður væri einhversstaðar annarsstaðar í Evrópu en miðað við aðra staði í Bosníu þá rúlar þessi). Svo fórum við heim í íbúðina hennar mömmu og Nermins (vinnan leigir nefnilega íbúð fyrir mömmu og Nermin í Sanski Most). Við að vísu þurftum að sofa á PÍNULITLUM svefnsófa í stofunni. Mamma bauð okkur sitt herbergi sem er með tvíbreiðu rúmi og bauðst til að sofa í stofunni en þar sem Nermin er alvöru Bosníu maður sem reykir hvar sem hann getur, hvenær sem hann getur og er skít sama um það að reykurinn fari í annað fólk þá tókum við það ekki í mál að mamma mundi sofa í reykmökktri stofunni, sérstaklega þar sem það kom sér vel fyrir okkur að vera þar sem reykja mátti. Þannig að þegar mamma var farin að sofa þá gátum við setið og lesið og reykt inni og sofið svo í kremju. Enda ekki nóg með það að rúmið hafi verið lítið á breiddina þá var það frekar lítið á lengdina líka. Það lítið að Eisi vaknaði alltaf með verki í löppunum. En ég meina svona er það þegar maður býr inn á aðra, maður tekur því sem maður fær og verður bara að vera ánægður með það.
Á miðvikudagsmorginum vakna ég við það að Nermin kemur inn í stofu (þar sem er líka smá eldhúskrókur) og byrjar að búa til kaffi kl 7 um morguninn. Þetta er var að vísu annar galli á að sofa þarna en við vissum af því þegar að við ákváðum að sofa þarna. Ég fór frammúr um leið og kaffið var tilbúið og drakk kaffi með Nermin á meðan Eisi svaf. Svo lögðum ég, mamma og Nermin af stað í vinnuna kl 8, en Eisi ákvað að fá að sofa út, enda engin ástæða fyrir hann að fara á fætur.
 
Vinnustaðurinn hennar mömmu er eitt stórt vöruhús sem núna í dag hefur að geyma um ca 1000 líkamsleifar/beinagrindur. Vöruhúsið er hólfað niður í langan gang með nokkrum herbergjum og klósetti og svoleiðis og svo 2 stóra sali. Annar salurinn er nokkurskonar geymslu svæði þar sem allar beinagrindurnar sem annaðhvort eru að bíða eftir greftrun eða eftir skoðun eru geymdar í líkpokum allstaðar á gólfinu eða þá í hillum. Hinn salurinn er stærri og þar er búið að raða á gólfið og í stál skúffu-hillur beinagrindum sem verið er að vinna að. Þannig að þegar maður labbar inn þá eru endalausar raðir af líkpokum með beinagrindum ofaná sem búið er að raða í anatómíska stöðu (eins og þið mynduð leggjast á bakið með lófana upp) og með fram veggjunum eru stálrekkar með 5 rennanlegum hillum hver, þar sem einnig er búið að raða beinagrindum niður. Inn frá stóra salnum er svo lítið herbergi sem ég og mamma vorum að vinna í þá daga sem ég var þarna. Þar var búið að raða á gólfið og á nokkur borð ca 15 beinagrindum sem átti eftir að gera allt við. Þannig að það sem ég var að gera á miðvikudaginn var að leggja út beinagrindurnar í anatómíska stöðu og ef til dæmis hauskúpan var öll brotin þá sat ég og reyndi að púsla henni saman að fremsta magni og líma hana svo saman. Ég verð nú að segja að ég naut mín mjög vel í vinnunni þennan miðvikudag. Í fyrsta lagi því það var svo frábært að vinna við þetta aftur og í öðru lagi að mamma lét mig aðeins spreyta mig á aldurgreiningunni. Þá gekk ég á milli beinagrinda í salnum sem nú þegar höfðu verið nafngreindar með DNA og aldurgreindi og fór svo í tölvuna til að sjá réttan aldur. Einnig vann ég á fyrstu kvenkyns beinagrindinni minni (því allar sem ég hef unnið með áður fyrr voru karlmenn) og mér tókst að líma saman í fyrsta skipti heila hauskúpu sem var öll í brotum ( hef alltaf bara límt brot og brot í frekar heillegar hauskúpur). Þannig að já viðburðarríkur dagur í vinnunni þann miðvikudag.
Á meðan að við vorum öll í vinnunni fór Eisi á bæjarrölt í þessum litla 50.000 manna bæ. Hann rölti á milli kaffihúsa og drakk kaffi og bjóra, las bók og spjallaði við fólk, hunda og ketti. Það kom nefnilega einhver gaur til hans á kaffihúsið sem sagðist vera frá öðrum bæ í Bosníu en hafði verið í Sanski Most í 5 daga að reyna að leita sér að vinnu, og það gengi ekkert og hann væri orðinn alveg auralaus. Þannig að Eisi bauð honum upp á kók og gaf honum 5 mörk (ca 250 kr) og spjallaði aðeins við hann. Gaurinn var yfir sig hrifinn og sagðist ekki eiga til orð yfir því hvað Eisi væri góður og svo gaf hann honum heimilsfangið sitt og sagði að ef Eisi ætti einhverntíma leið framhjá þá ætti hann endilega að kíkja og gæti alltaf fengið gistingu. En líka ef hann ætti til dæmis gömul barna föt eða skó nr. 44 sem hann væri ekki að nota lengur þá mætti hann alveg endilega senda það á þetta heimilisfang, hahahahahahaha . Svo hitti Eisi líka hvolpafulla tík sem hann vingaðist við og oggu pínupons lítinn ketling
Eftir vinnu sóttum við svo Eisa og fórum og fengum okkur að borða á Camino og svo heim. Ég og Eisi kíktum svo út í 2 drykki á kaffihús um kvöldið, en ef ég á að segja eins og er þá hefðum við frekar átt að sleppa því. Ég nefnilega fékk mér 2 rauðvínsglös og ég verð að segja að þetta var ekki besta rauðvín í heimi og ég gat ekki einu sinni klárað seinna glasið. Svo þegar að við fórum að sofa nokkrum tímum seinna varð mér illt í maganum og svo eftir að hafa verið að velta mér fram og til baka í rúminu vegna ónota í maganum í 2 tíma varð ég því miður að fara á klósettið og skila öllu því sem hafði farið í magann um daginn . Svo að sjálfsögðu gat ég ekki sofið það sem eftir var af nóttinni.
Daginn eftir (fimmtudag) ákvað ég að vakna ekki í vinnunna kl 7 þar sem ég hafði sofið sama sem ekki neitt, og keyrði Eisi mig ekki í vinnuna fyrr en rúmlega 11. Ég fór svo að vinna með magapínu á meðan Eisi skoðaði sig aðeins um í vinnunni. Hann fór svo aftur í bæinn að kaffihúsast á meðan ég og mamma unnum báðar með magapínu (mamma greyið er nefnilega búin að vera veik í maganum í nokkra daga). Eftir vinnu sóttum við Eisa og fórum aftur að borða á Camino. Að vísu var ekki svo gaman fyrir mig og mömmu þar sem mamma fékk sér bara eintóm hrísgrjón að borða en ég hinsvegar vildi fá girnilegan mat þó mér væri illt í maganum en gat því miður ekki borðað mikið af honum. Þegar við komum svo heim fór Nermin að leggja sig ( hann leggur sig alltaf í klt eftir mat), mamma fór að leggja sig með sína magapínu og ég og Eisi enduðum líka með að sofna. Svo um níu leytið þegar allir voru aftur komnir á lappir var bara lesið, spjallað smá og farið svo aftur að sofa .
Á föstudeginum vöknuðum ég og Eisi bæði kl hálf átta, ég til þess að fara að vinna en Eisi vegna þess að þrifi konan kemur alltaf kl 8 á föstudögum og nennti Eisi ekki að vera sofandi í stofunni á meðan hún og maðurinn hennar væru að þrífa allt í kringum hann. Skiljanlega. Á leiðinni í vinnuna stoppuðum við öll á kaffihúsi eins og mamma og Nermin gera á hverjum morgni og svo var farið í vinnuna. Vinnudagurinn var stuttur en samt skemmtilegur því við kláruðum að raða öllu beinagrindunum og fórum svo í það að greina þær. Það felur í sér að við erum með útprentuð blöð þar sem öðru megin er prentuð mynd af öllum beinunum og við merkjum inn á hvaða bein vantar, hvaða bein eru brotin eða nöguð. Einnig teiknuð við inná ýmis einkenni eins og til dæmis gömul beinbrot og aðra áverka ef þeir fyrirfinnast, og einnig skráum við niður ef það eru einhverjir fylgihlutir eins og gómar, falskar tennur eða skrúfur í beinbrotum og þess háttar. Hinum meginn á blaðinu eru svo skráðar niður allar kyn-, aldur- og lengdarniðurstöður, ásamt upplýsingum yfir tennurnar, t.d. hvaða tennur eru til staðar, allar skemmdir í tönnum og einnig ýmisskonar lýti.
­Þennan dag unnum við bara til hálf tvö og keyrðum svo aftur í 4 tíma til Sarajevo, þar sem við borðuðum, röltum smá um bæinn og fórum svo dauðuppgefinn fyrr að sofa.
Þá vitið þið það
Þar sem þetta er orðin mjög löng færsla ætla ég að skrifa helgina inn annað kvöld.
Lesumst þá

Leave a comment