Saturday, 29 July, 2006

Nóg að gera í hitabylgju

Posted in Uncategorized at 10:38 am by lexusinn

Ok það er búið að vera meira en nóg að gerast hjá mér síðustu vikur og lítill tími til að blogga, þannig að núna fáið þið enn fleiri langar færslur af mínu lífi hér í Bosníu. Sunnudaginn þann 8 júlí, naut ég dagsins í rólegheitum og svo um kvöldið fór ég að sækja hana Tal (prófessorinn minn frá Preston) á flugvöllin, hún nefnilega var að koma hingað í tæplega 5 daga dvöl. Hún kom það seint um kvöldið að hún, ég og mamma, náðum að spjalla í ca klukkutíma í eldhúsinu um allt og ekkert, svo horfðum við á restina af loka fótboltaleiknum, Frakkland-Ítalía, og mér til mikillar gleði unnu Frakkarnir ekki. Skítt með Ítalana hélt ekki með þeim né á móti þeim, mitt aðal goal var það að frakkarnir mundu ekki vinna og svo varð, JEJJJJJJJJJ, núna þarf ég ekki að fara aftur til Preston og horfa á Frakkana með sitt sigurglott. Afhverju, hmmmm, prófið þið að búa með 5 frökkum í næstum heilt ár og segið mér afhverju.

Að vísu þá átti franska liðið skilið að vinna, því þeir voru virkilega góðir, en ég er ekki svo hlynt frökkum sem heild og ég vildi ekki sjá þá brosa þessu sigurbrosi það sem eftir væri, þeir halda að þeir séu bestastir og æðislegastir nú þegar, vantaði ekki þetta uppá, HA, þetta mun sýna þeim. Sorry allir sem gætu orðið fúlir yfir þessu kommenti, en aftur mun ég segja: búið með 5 frökkum í Englandi, og verið umvafin frökkum í Englandi og þið munuð skilja mig.

Alla veganna, á mándeginum (morguninn eftir að Tal kom) fórum ég, mamma og hún á skrifstofuna hér í Sarajevo. Mamma fór að vinna að sínu, og ég fór að taka Tal á milli skrifstofa svo að hún geti hitt hinn og þennan. Eftir mikil fagnaðarlæti og annað fyrst um morguninn þegar að hún hitti alla sem hún hafði ekki séð í næstum 10 ár (hún var nefnilega að vinna í Bosníu árið 1997), þá skildi ég hana eftir með fólki svo hún gæti spjallað. Um kl 17 var hún loksins búin að hitta og spjalla og allt það og við löbbuðum heim. Á leiðinni heim kíktum við í bæinn og hún keypti dúkku handa dóttur sinni og smá minjagrip fyrir konuna sem var að passa dóttur hennar meðan að hún var hér. Svo var auðvitað farið út að borða um kvöldið og svo snemma að sofa.

Á þriðjudeginum vöknuðum við kl 5 um morguninn (eða þær kl 5, ég soldið mikið seinna). Svo klukkan 6 vorum við mættar á bílnum niðri í bæ, þar sem við hittum alla frá federal commission (lokal liðið sem sér um uppgreftri í bosniu) og þar var beðið eftir að allir mættu, fengum VIP miða í gluggana á bílunum okkar og svo var lagt af stað til Potocari í jarðaförina. Ástæðan fyrir því að við lögðum svo snemma af stað (tekur bara rúmlega 2 tíma að keyra og jarðaförin átti ekki að byrja fyrr en um 1) var sú að árið áður var 10 ára anniversary frá því að Srebrenica genocide átti sér stað og það árið voru um 2000 manns sem komust ekki á leiðarenda vegna umferðar. Núna voru því allir svo traumatized og þess vegna lögðum við af stað svo snemma. Umferðin var þó fín þetta árið og vorum við komin til Potocari um 10 leytið, og þegar að þangað var komið var búið til kaffi fyrir liðið og svo var bara beðið. Á meðan að við biðum, gengum við um byggingarnar sem fyrrum Hollenska UN liðið gætti í Srebrenica (þau eru núna að fara fyrir rétt í Haag, fyrir það að segjast ætla að gæta múslimanna, en samt tókst Serbunum að ná þeim og myrða um 8500 af þeim, anyways, þið ættuð að vita af þessu). Við skoðuðum því fullt af veggkroti sem hermennirnir úr DUTCHBAT skildu eftir sig á þessum árum sem þeir áttu að vera að gæta öryggis Srebrenica búa. Mikið af flottum teikningum, veggkroti, dagatölum, og kommentum um Bosníu menn/konur sem voru ekki svo flott. T.d. eitt segir: MY ASS IS LIKE A “LOCAL” ITS GOT THE SAME SMELL. BOSNIA ’94. Eða: NO TEETH…?                                                

 A MUSTACHE…                                               

SMEL LIKE SHIT…?                                                

BOSNIAN GIRL!

Jú jú ég er með allar myndirnar af þessu, fullt af þeim, mun setja þær inn þegar að ég get, eiginlega þegar að ég kemst í góða internettengingu.

En já eftir að hafa eytt tímanum okkar í að drekkar kaffi, spjalla, hitta fólk, þá fórum við öll að fylgjast með athöfninni. Hún byrjaði á þjóðsöngnum og Bosníski fáninn var dreginn að stöng. Svo voru sungin 3 lög af kór og tilheyrandi, og svo var messa. Messan er auðvitað múslimsk, og því allt á arabísku og maður skilur ekki neitt (að vísu skilja flest allir múslimarnir hérna heldur ekki neitt, en þetta er þeirra trú og þeir vita hvenær á að beygja sig fram, hvenær að standa upp og svo framvegis, þau kunna bænirnar, þó þau kunni ekki arabísku). En það er alltaf svo áhugaverð stund, falleg á sinn hátt, þegar að maður sér þúsundir manna fyrir framan sig (við sitjum alltaf efst í brekkunni) beygja sig á sama tíma, standa upp á sama tíma, leggjast niður á sama tíma. Mjög flott. Einnig það sem er flott við athöfnina í Potocari, er að konur fá að standa og biðja í röðum með karlmönnum (annars er reglan sú í venjulegum moskum (kirkjurnar þeirra) að karlarnir fara inn að biðja og konurnar bíða úti), en þessi athöfn er öðruvísi, þetta er minningar jarðaför og fleiri konur en karlar syrgja sína menn og því á þessum degi, í þessari athöfn, eru múslimskar konur og menn, jafningjar. Svo eftir athöfnina fara allir að ná í líkkisturnar sem innihalda þeirra nánustu. Málið er að 2003 og fyrir, var búið að raða líkkistunum niður við grafirnar, og eftir athöfnina fóru allir að gröf sinna þeirra sem átti að grafa og allir byrjuðu að grafa sína nánustu. En frá og með síðasta ári, var einhverra hluta vegna ákveðið að raða öllum kistunum í röð hjá staðnum þar sem messan fer fram og svo eftir messuna fara allir og taka “sína” kistu og bera hana að gröfinni. Við fylgdumst með því í smá stund þegar að hundruðir voru að taka líkisturnar sem þau ætluðu að grafa og svo voru þær bornar handa á milli ad gröfunum. Hmm erftitt að lýsa þessu í orðum.

Vanalega hefðum við fylgst með öllu saman, þ.e. meðan að fólk er að taka kisturnar og svo grafa þær, en Amor (head of the bosnian federal commission), var búin að ákveða að sýna einhverjum “mikilvægum” útlendingum eina fjöldagröf sem búið var að opna nokkra kílómetra frá. Öllum sem voru í bílförinni með honum til Potocari var velkomið að koma með. Við auðvitað ákváðum að fara að skoða gröfina, enda ekki spurning um annað. Þau segja að þetta sé stærsta fjöldagröf í Bosníu hingað til. En málið er eftir að við sáum hana þá vorum við ekki svo vissar. Málið er að árið 2003 vann ég í mánuð, af nokkrum mánuðum sem unnið var þar, að stærstu gröf í bosníu hingað til. Sú gröf, Crni vrh, innihélt rúmlega 600 einstaklinga, var um 40 metra löng og um 12 metra djúp. En þessi gröf hins vegar er um 6 metra löng og um 2 metra djúp, af því sem að við sáum. En ég meina hver veit, kannski er hún stærri, kannski er hún dýpri, kannski………….Hvort sem er við sáum, skoðuðum og fórum, samt ekki fyrr en bæði Amor og mamma voru búin að halda smá fyrirlestur um hvað var að gerast í gröfinni og svo framvegis, sem Amor endaði á: jæja við ættum kannski að fara að koma okkur frá gröfinni fyrir þá sem ekki þola fnykinn. Tal var þó mjög ánægð því hún hefur ekki unnið að fjöldagröf í mörg ár og hún náði að taka fullt af myndum fyrir kennsluna næsta ár, en hún spurði mig samt: voru einhverjir sem voru ekki að þola lyktina/fnykinn? Ég sagði já, því það voru alla veganna 5 manns þarna sem héldu vasaklút þétt upp að nefinu allan tímann og svo nokkrir aðrir sem voru með frekar skrítinn svip á andlitinu. Fyrir okkur var þessi lykt/fnykur ekki svo truflandi, eitthvað sem maður finnur liggur við dags daglega í þessari vinnu. Ég meina maður venst ekki lyktinni, maður frekar venst því að venjast henni.

En hvort sem er….. eftir að hafa skoðað gröfina lögðum ég og Tal, og mamma í sitthvora áttina. Ég og Tal keyrðum til Tusla (fyrir norðan) mamma hins vegar fékk far með hinum til Sarajevo, mamma þurfti nefnilega að mæta í vinnuna í Sanski Most daginn eftir en ég og Tal vorum að fara að ferðast um landið að hitta hinn og þennan. Eftir um því eins og hálf tíma akstur komum við til Tusla (bærinn sem ég vann í, í 2 mánuði 2003). Við gistum á gamla heimilinu mínu og hennar Tal (konan þar, Zlata, leigði nefnilega herbergi í húsinu sínu til ýmiss fólks frá að ég held 1996). Tal bjó þar 1997 og mamma með hléum og svo Pétur og svo ég frá 1997-2004. Ég meina það mundi taka mig bls að segja frá því hversu indisleg þessi kona og börn hennar eru (sonurinn vinnur í blóðsöfnun fyrir ICMP og dóttirinn í skrifstofunni í Sarajevo). En já Tal hefur ekki hitt hana í 10 ár og ég ekki í 2 ár og við gistum því hjá henni um nóttina. Fagnaðar fundir, matur, spjall og alles. Eftir að hún fór að sofa sátum við Tal svo langt fram á kvöld að drekka bjór og spjalla við Edin (soninn, um 30 ára). Morguninn eftir, miðvikudag, vöknuðum við snemma. Zlata og Edin fóru að vinna sína vinnu og ég og Tal fórum að hitta fólk. Við byrjuðum að heimsækja local spítalann þar sem maður að nafni Vedo vinnur, Tal vann með honum áður eins og með alla þá hefur hún ekki séð þetta fólk í 10 ár og eins og með alla í Tusla þá hef ég ekki hitt þetta fólk í 2-3 ár. Við eyddum einhverjum 2 tímum upp á spítala. Fyrst eftir öll fagnaðarlætin af að sjá Tal, þá eyddum við um klst í að spjalla og svo fórum ég og Tal að hjálpa Vedo að vinna í um klst. Ég verð að segja að eftir öll mín ár að vinna með mismunandi bein og jafnvel þetta árið þar sem að ég sé og vinn að beinum næstum daglega, þá varð ég svo ánægð og hvað get ég sagt “æst” á sama tíma. Málið er að beinin sem Vedo er að vinna að eru beinin sem fundust í Crni Vrh gröfinni sem ég vann að í mánuð í 2003. Hingað til hafði ég aldrei unnið að beinum í líkhúsi, sem ég hafði grafið upp. Ég varð því afskaplega spennt þegar að ég sá bein, 3 árum eftir að ég tók þátt í að grafa þau upp, liggjandi þarna. Ég veit að það hljómar furðulega, en það var þessi tilfinning að maður væri að heilsa upp á einhvern sem maður hafði ekki séð í 3 ár………………..sá liggjandi á einu borðinu, furðulegt hringlaga tæki með vírum, sem hafði verið notað til að laga beinbrot, virkilega furðulegur hlutur, ég hafði tekið þátt í að grafa þetta upp, allir sem unnu að þessari gröf muna eftir þessu. Já, skrítin tilfinning, enn og aftur ekki hægt að lýsa þessu. Sem vísindamaður, jú frábært að sjá öll þessi bein sem maður gróf upp aftur, frábært tækifæri til að skoða öll þessi börn, konur og menn, fólk greinilega ný komið eða tekið af spítala með ýmis brot og annað, barna bein (maður sér þau ekki svo oft, sem betur fer), konu beinagrind með leifar af fóstri………………..Tal var að skoða konu beinagrind sem búið var að leggja út í anatómíska stöðu (það er eins og hún hafði verið liggjandi á bakinu) og við fætur hennar var hrúga af allskonar dóti, þ.e.a.s beinflísar, steinar og annað sem maður skilur eftir við skoðun, en Tal fór að skoða þetta betur og sortera í gegnum þetta í von um að finna kannski lítil fingra/tá bein og hvað fann hún. Jú hún fann fyrst bein sem hún hélt að tilheyrði kannski kjúklingi, en svo leit hún betur og hún fann fleri svona bein og svo fattaði hún..ég er að týna upp fóstur. Hún fann leggjar bein (sem líta svo furðulega út, þegar þau eru úr samhengi að maður gæti haldið að þau væru dýra bein), hægri hluta af mjaðmargrind, bæði axlarbeinin, og alla hauskúpuna (sem er alltaf í hlutum, því bein hauskúpunnar vaxa ekki saman fyrr en barnið er fætt). Sem sagt, ófrísk kona, komin á síðustu mánuði meðgöngu. Hmm, sem vísindamaður, svoooooooooooo áhugavert. En sem manneskja, svo sorglegt að sjá konu og fóstur, barna bein, bein gamalla, veikra manna og kvenna………………….. En ég reyni að horfa sem sjaldans á bein með augum manneskju og horfi ég á þau með augum réttarmannfræðings.

Eftir að hafa verið þarna hjá Vedo í um tvo tíma fórum við að skoða 2 aðra staði, hitta meira fólk og svo keyrðum við af stað til Sanski Most. Vorum komnar þangað um kvöldmatarleitið, borðuðum, spjölluðum við mömmu og Nermin og svo fórum við öll snemma að sofa. Daginn eftir eyddum við deginum í vinnunni, ég var að vinna með mömmu, en Tal var að tala við Senem (stelpuna sem vinnur með mömmu og er að reyna að sækja um scholarship í sama mastersnám og ég í Preston). Svo tók hún hrúgu af myndum fyrir kennsluna og svo keyrðum við til Sarajevo. Borðuðum og fórum aftur snemma að sofa þar sem við þurftum að vera mættar á flugvöllinn kl 6 um morguninn.

Svo síðan þá þangað til núna er ég bara búin að vera eyða tímanum mínum í vinna og læra og eiginlega ekkert annað. Það er einhver fjandans hitabylgja að ganga yfir og við erum bókstaflega búin að vera að drepast úr hita núna í rúma viku. Það eru upp í 37°C daglega og það er engin loftræsting í vinnunni (vöruhúsinu). Hitamælirinn inni í vöruhúsinu var komin upp í 35°C, þannig að við erum frekar örmagna í vinnunni og heilinn á manni er hægt og sígandi að breytast í mauk, og maður svitnar svo mikið að ég hlýt að fara að breytast í sveskju bráðum. Við prófuðum að setja hitamælin út í sólina í dag og þegar að ég fór að ná í hitamælinn þá var hann kominn í það hæsta, því hann nær bara upp í ca 55°C. Ég fór því að velta fyrir mér hvernig mér tókst að lifa af sumarið 2003 þegar að ég var að vinna að uppgröftrum í hitabylgju. Ég meina við vorum ekki með neitt tjald eða neitt yfir gröfinni og vorum við því að vinna í pjúra sól. Ef mælirinn núna fór yfir 55°C þá hlutum við að hafa verið að vinna í rúmum 60°C daglega. En jú ég er ENN á lífi og ég sakna Íslenska sumarsins frekar mikið núna. Ég veit að þið heima eruð að kvarta yfir hvað það er kalt, en það er samt skárra en þessi hiti, sérstaklega þar sem ég er ekki í fríi að spóka mig í sólinni.

Nóg í bili

Heyrumst 

8 Comments »

  1. rosahuld said,

    Hæ sæta mín, ég verð að viðurkenna að ég táraðist við lýsinguna þína á bílalestinni með 505 kistum innanborðs, er svona tilfinninganæm mannvera stundum… oft. Nema hvað þó ég komi ekki oft þá les ég allt sem þú skrifar og þótt það taki stundum hátt í klst. þá nýt ég þess að lesa um allt sem þú ert að gera, kossar og knús

  2. MONGA said,

    Jeg man tegar jeg for ad heimsaekja Zlotu sidast a leidinni til austurrikis ta tok Edin mig i Tivoli og zlata eldadi handa mjer Burek…mmm

  3. Tóta said,

    🙂

  4. meiri myndir said,

    SETTU INN FLEIRI MYNDIR….vid viljum myndir, vid viljum myndir

  5. Helga Sig said,

    Óska þér góðrar skemmtunar með Eisa, tengdaforeldrunum, Nonna og Birnu. Vona að þau hafi öll skilað sér eftir tafirnar vegna flugsins til London.

    Bestu kveðjur frá öllum hér hjá Endurskoðun ÞÞJ ehf.

  6. skellibjalla said,

    júhú, alltaf jafn gaman að lesa færslurnar þínar. Þetta er ekkert smá spennandi. Fjölskyldan hans Eyjó var að spyrja um þig, við vorum nefnilega í útilegu saman og þau vildu vita hvað væri að frétta af vinkonu minni, þessari sem að var að læra þetta skrítna….

    Hlakka til að fá þig heim, hvenær verður það nú eiginlega??

    HH

  7. Rakel Guðmundsdóttir said,

    Hæ honey.. fann ekki gestabók á síðunni þinni 😉 en þetta er mjög flott lúkk hjá þér og hauskúpan er klassamynd! En ég er nú alveg sammála þér með þessa.. frakka.. 🙂 hef ekki þurft að búa með þeim til þess að vera ekki að fýla þá! allavegana hef ég ekki kynnst neinum skemmtilegum frakka ennþá ! en hvað um það.. ég er farin að þrá fondúmat með ykkur, Steingerði og Ásu aftur eins og í gamla gamla daga! hvenær á að koma heim og í fondú ?

    Franskar kveðjur,
    Rachella

  8. Tito said,

    ello my love á ekkert að fara að skrifa eitthavð meira kær saknaða kv Títo


Leave a comment